08/15/2025

Rekstrarhagnaður tæplega 1,2 milljarðar króna á fyrri árshelmingi

image

Rekstrarhagnaður (EBIT) Styrkás nam 1.153 m.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins sem er 4% aukning milli ára en 3% undir áætlun tímabilsins. Áætlun ársins er óbreytt og gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður samstæðunnar verði 2,4 ma.kr. árið 2025 (að teknu tilliti til IFRS áhrifa).

Orka- og efnavara (Skeljungur) skilaði sterkum fyrri árshelmingi þar sem framlegð var yfir áætlun í öllum tekjuflokkum og rekstrarhagnaður vel umfram áætlun. Tæki og búnaður (Klettur) skilaði 9% tekjuvexti milli ára. Pantanabækur Scania og Cat tækja á seinni árshelmingi eru sterkar en afkoma í þjónustu var undir áætlun á fyrri árshelmingi vegna áskorana við öflun sérhæfðs starfsfólks á sama tíma og ábyrgðaverkum sem skila lægri framlegð fjölgaði vegna mikillar sölu tækja síðustu tvö ár. Rekstrarhagnaður er af þeim sökum undir áætlun á fyrri árshelmingi en gert er ráð fyrir að afkoma af þjónustu batni á seinni árshelmingi. Í eignaumsýslu og leigustarfsemi (Stólpi) var 15% tekjuvöxtur milli ára og rekstrarhagnaður í takt við áætlun. Verkefnapípa í húseiningum hjá Stólpa er sterk og eru stór verkefni framundan fyrir opinbera aðila. Stólpi opnaði nýja starfstöð að Gullhellu í Hafnarfirði í byrjun júlí. Þjónustutekjur samstæðunnar jukust um 14% á milli ára og leigutekjur um 11%.

 

Samþætting innan samstæðu gengur vel og unnið er að því að búa innri ferla félagsins fyrir skráningu í kauphöll. Styrkás gaf út sína fyrstu árs- og sjálbærniskýrslu í apríl sem nálgast má með því að smella á fjárfestar í valmynd hér að ofan.

logo

Fleiri fréttir