10/31/2025

Góður vöxtur á öllum kjarnasviðum Styrkás

image

Rekstur Styrkás var í samræmi við áætlun á fyrstu níu mánuðum ársins en EBIT félagsins (án IFRS áhrifa) á tímabilinu var 1.902 m.kr. Þjónustutekjur Styrkás jukust um 28% frá sama tímabili í fyrra og var góður vöxtur hjá öllum kjarnasviðum samstæðunnar. Leigutekjur jukust um 12% frá fyrra ári og vöxtur sölutekna nam 6%.

Markaðshlutdeild í sölu á tækjum og búnaði var sterk og er útlit fyrir góðan vöxt í sölu vinnuvéla árinu. Hlutdeild í nýskráningum vörubíla er enn yfir 50% þótt útlit sé fyrir að sala dragist saman frá fyrra ári sem var metár. Klettur fékk umboð fyrir Merlo skotbómulyftara á fjórðungnum sem breikkar vöruframboð og styrkir tekjustoðir félagsins. Afkoma í þjónustu Kletts var umfram áætlun á 3. Ársfjórðungi, en á fyrri árshelmingi litaðist afkoman af áskorunum við öflun sérhæfðs starfsfólks og ábyrgðaviðgerða í kjölfar mikillar sölu sl. 2 ár.

Framlegð í orku- og efnavöru var umfram áætlun fyrstu 9 mánuði ársins. Skeljungur tók yfir rekstur Reykjavíkurflugvallar um áramót og þjónustar 17 flugfélög á Keflavíkurflugvelli. Gjaldþrot Play hafði óveruleg áhrif á reksturinn. Góður gangur var í eignaumsýslu- og leigustarfsemi en Stólpi opnaði á fjórðungnum nýtt athafnasvæði að Gullhellu í Hafnarfirði. Unnið hefur verið markvisst í að kynna lausnir félagsins á markaði og að stærri verkefnum. Það sem hæst ber af þessu ári er afhending nýrrar lögreglustöðvar í Reykjanesbæ og aðstöðusköpun fyrir Landsvirkjun við Hvammsvirkjun.

Afkoma og umsvif félagsins hafa opnað fyrir möguleika á markaðsfjármögnun. Styrkás gaf út skuldabréf fyrir 2,2 ma.kr. í október með 1,5% álagi ofan á 1 mánaða REIBOR vexti. Skuldabréfin verða skráð í kauphöll á fyrri árshelmingi 2026. Skráning skuldabréfs er rökrétt skref í vegferð félagsins en stefnt er að skráningu hlutafjár í kauphöll fyrir árslok 2027.

Mynd: Ný lögreglustöð í Reykjanesbæ

Ljósmyndari: Bent Marinósson

logo

Fleiri fréttir